Toggle Mobile

News

News

24. apr..2015

Heimsþing jarðhitans á Íslandi 2020

HEIMSÞING JARÐHITANS Á ÍSLANDI 2020

 

Dagana 20. til  25. apríl 2015 var haldin „World Geothermal Congress 2015“ eða Heimsþing jarðvarmans  í Melbourne í Ástralíu.   Heimsþingið er haldið á vegum International Geothermal Association (IGA), sem er Alþjóða jarðhitasambandið sem er 25 ára um þessar mundir. 

Heimsþing jarðvarmans var haldið fyrst árið 1995 í Flórens á Ítalíu en þingið er haldið á 5 ára fresti. Árið 2010 var það á Balí í Indónesíu.

Íslendingar hafa ávallt verið virkir þátttakendur á þessum ráðstefnum enda mikilvirtir í jarðvarmaframleiðslu á heimsvísu.  Ísland er 6. stærsta framleiðsluland í jarðhita í heiminum – en sérstaða landsins er bein nýting hans þar sem hitaveiturnar bera hæst.  Þar þykja íslenskir vísindamenn og atvinnufyrirtæki hafa til að bera afburða þekkingu sem er eftirsótt um allan heim.  Sú staðreynd að 2/3 allrar frumorkunýtingar heillar þjóðar komi frá jarðhita líkt og er reyndin með Ísland er einsdæmi í heiminum.  

Á Heimsþinginu í Ástralíu eru samankomnir 1600 sérfræðingar frá 85 þjóðum. Íslenskir þátttakendur eru 86 talsins - að stórum hluta vísindamenn og margir þeirra halda hér fyrirlestra um sín hugðarefni og rannsóknir.  Margar tímamótarannsóknir hafa verið kynntar á Heimsþingum jarðhitans frá 1995 og svo var einnig hér í Melbourne undanfarna viku enda er andrúmsloftið magnað á þessum ráðstefnum. 

Íslendingar hafa þrisvar sótt um að halda þetta Heimsþing.  Íslenska umsóknin náði ekki brautargengi 2010 (fór til Balí í Indónesíu) og Ástralir höfðu betur árið 2015.  Það voru síðan 6 þjóðir sem sóttu um að halda Heimsþingið árið  2020 og þá ákvað 30 manna stjórn IGA að Heimsþingið færi fram á Íslandi.   Það var með afar víðtækri og breiðri samstöðu sem umsóknin var gerð, bæði frá hinu akademíska samfélagi og úr atvinnulífinu.  Það voru Jarðhitafélag Íslands og Samorka sem fóru þess á leit við Iceland Geothermal að klasasamstarfið myndi leiða umsóknarvinnuna.  Á fundi IGA í mars 2014 kynntu þau Bjarni Pálsson hjá Landsvirkjun og Rósbjörg Jónsdóttir frá Iceland Geothermal klasasamstarfinu niðurstöðu þeirrar vinnu.  Valið stóð í lokin milli Íslands og Þýskalands og hafði Ísland betur í atkvæðagreiðslu stjórnarinnar sem fram fór í október 2014. 

Það var síðan Ragnheiður Elín Árnadóttir Iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem tók við umboðinu til ráðstefnuhaldsins  fyrir hönd Íslands við hátíðlega athöfn á lokadegi ráðstefnunnar sem haldin var í dag föstudaginn 25.apríl.

Meðfylgjandi mynd er tekin við það tækifæri þegar Ísland tók formlega þeirri ábyrgð að halda Heimsþing jarðvarmans árið 2020 frá stjórn International Geothermal Association (IGA) – eða Alþjóða jarðhitasambandinu á Heimsþinginu í Melbourne föstudaginn 24. apríl 2015.

Á myndinni eru frá vinstri: Árni Ragnarsson (ÍSOR, stjórnarmaður í IGA), Rósbjörg Jónsdóttir (Iceland geothermal klasasamstarfinu, framkvæmdastjóri WGC 2020 á Íslandi), Juliet Newson (formaður IGA, frá Nýja Sjálandi)  Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem tók á móti  umboðinu, Bjarni Pálsson (Landsvirkjun, stjórnarmaður í IGA), Lúðvík Georgsson (skólastjóri Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og stjórnarmaður í IGA) og Alexander Richter (Thinkgeoenergy og stjórnarmaður í IGA) 

Undirbúningur fyrir Heimsþingið 2020 er þegar hafinn – og munu hundruðir Íslendinga koma að honum.  Iceland Geothermal klasasamstarfið mun leiða þá vinnu og mun Rósbjörg Jónsdóttir verða framkvæmdastjóri Heimsþingsins sem haldin verður í Hörpu í lok apríl 2020.

Verkefni sem þetta hefur mikil margföldunaráhrif til samfélagsins en áætla má að fjárhagsleg áhrif af þessum viðburði hlaupi á milljörðum króna miðað við verðlag í dag.  Ef vel tekst til gæti Heimsþing 2020 orðið stærsta ráðstefna sinnar tegundar sem haldin hefur verið á Íslandi.